Hetjurnar og Þroskahjálp á Norðurlandi eystra hafa fengið Systkinasmiðjuna til að koma norður helgina 17.-19. maí og halda námskeið. Systkinasmiðjan er fyrir krakka á aldrinum 8-14 ára sem eiga það sameiginlegt að eiga systkini með sérþarfir.

Félögin munu greiða námskeiðskostnað og fæði á námskeiðinu fyrir börnin. Til að fá námskeiðið greitt fyrir sitt barn þarf fjölskyldan að vera skuldlaus við Hetjurnar.

Þar sem einungis eru 16 pláss í boði þessa helgi munu þeir sem skrá sín börn fyrstir fá plássin. Sé mikil eftirspurn eftir því að komast á námskeið verður reynt að fá systkinasmiðjuna aftur norður.

Um námskeiðið:

Á námskeiðinu leysum við saman ýmis verkefni, ræðum um stöðu okkar innan fjölskyldunnar, skólans og meðal vina. Við ræðum um hvernig við leysum úr erfiðleikum sem verða á vegi okkar, meðal annars vegna systkina okkar og margt fleira.

Þessa þætti nálgumst við meðal annarra í gegnum ýmsa skemmtilega leiki og reynum að fá til liðs við okkur ýmsa aðila sem hafa kynnst þessu af eigin raun.

Það sem skiptir meginmáli er að hvert og eitt barn fái að njóta sín sem best og tjái sig á þann hátt sem því hentar best og skemmti sér.

Tímasetning fyrir námskeiðið er þessi:

Föstudagskvöld: 2 tímar ásamt foreldrum – nánari tímasetning þegar nær dregur

Laugardagur: 10:00-15:00

Sunnudagur 10:00-14:00

Nánari upplýsingar eru inn á www.systkinasmidjan.com

Skráning fer fram á netfangi hetjanna – [email protected].